Uppeldi til ábyrgðar - Uppbygging sjálfsaga
Við á Ökrum vinnum eftir Uppeldi til ábyrgðar. Höfundur hugmyndafræðinnar er Diane Gossen. Byggir hún meðal annars á kenningum William Glasser um það að við höfum öll innbyggðar ákveðnar félagslegar grunnþarfir sem við erum alltaf að reyna að uppfylla. Þarfirnar eru fimm og eru þær:
Öruggt líf
Ást og umhyggja
Áhrifavald
Frelsi og sjálfstæði
Ánægja og gleði
Áhersla er lögð á að kenna börnunum að þekkja grunnþarfir sínar og er unnið markvisst að því að styrkja þau í að efla sjálfsskilning, ábyrgðarkennd og skapa sér sjálfstæðan lífsstíl. Öll hegðun sem við veljum að framkvæma stýrist af þessum þörfum og er tilraunir okkar til að uppfylla þá þörf sem knýr mest á hjá okkur hverju sinni á jákvæðan hátt. Stundum tekst okkur vel upp, stundum illa.
Uppeldi til ábyrgðar snýst að mestu um samskipti, ef samskipti eru góð og gefandi þá má byggja á þeim árangursríkt nám. Þetta er aðferð við að kenna sjálfstjórn og sjálfsaga og styrkja einstaklinga í því að læra af mistökum. Markmiðið er að þjálfa börn í að vera þau sem þau vilja vera út frá eigin sannfæringu en ekki bara að geðjast öðrum.